Umfjöllun

26.02.2008 - eidfaxi.is

Kraftur á þokkalegur róli

 

Kraftur frá Efri-Þverá kom heldur betur á óvart á forsýningu í Hafnarfirði 2006 þegar hann hlaut hæstu aðaleinkunn sem 4 vetra íslenskur stóðhestur hefur fengið, 8,37. Á LM2006 á Vindheimamelum stóð hann svo efstur í flokki 4 vetra stóðhesta. Kraftur var ekki sýndur aftur í fyrra en er nú í þjálfun hjá Agnari Þór Magnússyni, sem tamdi og sýndi hestinn 2006.

Sigurður Halldórsson, eigandi Krafts, er að vonum ánægður með frammistöðu folans, bæði á sýningarbrautinni og ekki síður í undaneldinu. „Kraftur var notaður á Efra-Seli við Stokkseyri eftir Landsmótið 2006. Þá voru hjá honum 30 hryssur. Ég vildi ekki hleypa fleirum undir hann vegna þess að hann var ekkert notaður tveggja og þriggja vetra. Í fyrra fór hann víðar, var hjá þremur hrossræktarsamtökum: Í Dölum, Húnaþingi og á Fljótsdalshéraði. Það fóru um 70 hryssur undir hann og fyljunin var eitthvað um 90%, aðeins misjafnt á milli gangmála.“

En það er væntanlega stefnt með Kraft á LM2008 á Gaddstaðaflötum?

„Ja, hesturinn er í þjálfun hjá Agnari Þór á Stað í Borgarfirði eins og er. Ég heyrði í honum um helgina. Hann segir svo sem aldrei mikið en sagði þó að ég þyrfti alla vega ekki að sækja hann strax. Hann væri á þokkalegu róli,“ segir Sigurður. Kraftur er undan Kolfinni frá Kjarnholtum og Drótt frá Kópavogi, Mánadóttur frá Ketilsstöðum. Undan honum eru skráð í WorldFeng 22 afkvæmi, öll fædd 2007. Þess má geta að Kraftur tekur á móti hryssum á Stað í Borgarfirði fram að Landsmóti en eftir mót verður hann í girðingu í Bjálmholti í Holta- og Landssveit.
By Jens on 26.2.2008

---

Hestamiðstöðin Gauksmýri, http://www.gauksmyri.is/frettir_26.08.2007g.htm

26.08.2007

Kraftur frá Efri-Þverá

Kraftur hefur verið hér í girðingu í sumar með 32 hryssum. Hesturinn var tekinn frá þeim á dögunum og fannst okkur aðdáunarvert hversu ljúfur hesturinn er þar sem Albert sonur okkur fór einn út í girðingu til hans og lagði við hann múl og teymdi hann frá öllum hryssunum án þess að það heyrðist múkk frá honum. Mikill öðlingur hann Kraftur.
 

     

 

 ---


09.06.2006 - Hestar.net
http://www.hestar.net/index.php?aAction=showMore&nID=3379
Hæst dæmdi fjögurra vetra stóðhestur veraldar

Enn rignir inn metum af kynbótasýningum vorsins. Ekki nóg með það að tvær tíur hafi litið dagsins ljós í vor og að Eldjárn frá Tjaldhólum hafi slegið einkunnamet í hæfileikum klárhesta heldur hefur fjögurra vetra stóðhestur, Kraftur frá Efri-Þverá, slegið einkunnamet í sínum flokki. Eftir því sem HESTAR komast næst hefur Kraftur slegið fjögurra ára gamalt met Illings frá Tóftum en hann hlaut 8,36 í aðaleinkunn á LM2002 á Vindheimamelum.

Kraftur sem er sonur hæfileikasprengjunnar og rýmisgammsins Kolfinns frá Kjarnholtum á líka góða að í móðurætt. Móðir hans er undan gæðingnum Mána frá Ketilsstöðum og Gnótt frá Steinmóðarbæ sem var af Kirkjubæjarkyni.


IS2002155250 Kraftur frá Efri-Þverá
Litur: 3400 Jarpur/rauð- einlitt
Ræktandi: Halldór Svansson
Eigandi: Sigurður Halldórsson
F: IS1981187020 Kolfinnur frá Kjarnholtum I
Ff: IS1968157460 Hrafn frá Holtsmúla
Fm: IS1974288560 Glókolla frá Kjarnholtum I
M: IS1989225350 Drótt frá Kópavogi
Mf: IS1975176190 Máni frá Ketilsstöðum
Mm: IS1979286002 Gnótt frá Steinmóðarbæ
Mál: 143 - 132 - 138 - 65 - 144 - 38 - 50 - 43 - 6,6 - 30,0 - 20,0
Hófamál: Vfr: 9,3 - Va: 7,9
Sköpulag: 8,0 - 8,5 - 8,0 - 8,5 - 8,0 - 7,0 - 8,5 - 7,5 = 8,20
Hæfileikar: 8,0 - 8,5 - 8,5 - 8,5 - 9,0 - 8,5 - 8,5 = 8,48
Aðaleinkunn: 8,37
Hægt tölt: 8,0 Hægt stökk: 8,0
Sýnandi: Agnar Þór Magnússon

---

 

Föstudaginn 30. júní, 2006 - Fastir þættir
Morgunblaðið

 

"Auðvitað bara byrjendaheppni"

 

Sigurður Halldórsson og Jónína B. Vilhjálmsdóttir eru ungt par úr Kópavoginum og þau eru hæstánægðir landsmótsgestir.


 
Siggi og Jónína í brekkunni ásamt tíkinni Doppu.

Sigurður Halldórsson og Jónína B. Vilhjálmsdóttir eru ungt par úr Kópavoginum og þau eru hæstánægðir landsmótsgestir. Kannski ekki skrýtið því Sigurður, kallaður Siggi, er eigandi hins efnilega fjögurra vetra stóðhests Krafts frá Efri-Þverá sem kom efstur inn á landsmótið í sínum flokki. Og sem meira er sló hann einkunnamet sem Illingur frá Tóftum átti en Kraftur fékk 8,37 á sýningu í vor.

Kolfinnssonurinn Kraftur lækkaði niður í 8,32 í forsýningunni í vikunni en þar sem stökkið mistókst á hann ágæta möguleika á að ná fyrsta sætinu í fjögurra vetra flokknum. Sýnandi Krafts er Agnar Þór Magnússon. Krákur frá Blesastöðum er sem stendur efstur inn með einkunnina 8,34.

Siggi og Jónína eru bæði þrælvant hestafólk, fengu þetta með móðurmjólkinni, og Siggi hefur stundað keppni með ágætum árangri og raunar er þetta fyrsta landsmótið sem hann mætir á án þess að keppa en hann keppti fyrst níu ára á landsmóti. Hann lætur systur sínar tvær um keppnina í þetta sinn en Rúna keppti í barnaflokki og Elka í ungmennaflokki.

 

Fyrsta folaldið

Þau segja hestamennskuna verða skemmtilegri með hverju ári því maður læri meira. Þau eiga nokkur hross sjálf en þetta er fyrsta folald Sigga. "Pabbi minn, Halldór Svansson, eignaðist hryssuna Drótt frá Kópavogi sem er undan Mána frá Ketilsstöðum og úr ræktun Vilhjálms Svanssonar, frænda míns, og ég fékk hana lánaða, pörunin er mín. Ég valdi Kolfinn frá Kjarnholtum - þetta er auðvitað bara byrjendaheppni," segir Siggi. Jónína segir þau einmitt hafa vonast eftir hryssu en þau séu auðvitað ekki svikin með þennan hest. Þau segja þetta jú það lengsta sem hross frá þeirra fjölskyldum hefur náð og slær svona almennilega í gegn. "Það er gaman að vera kominn með hest svona langt, ég hef átt góða hesta en ekki frá manni sjálfum, þó er þessi sá besti. Ef stökksýningin tekst á hann möguleika, við getum ekkert gert nema beðið. Kraftur býr fyrst og fremst yfir frábæru geðslagi sem gerir það að verkum að fjögurra vetra hestur getur afkastað þessu. Hann hefur vaxið jafnt og þétt í vor."

Þau segja pantanir þegar vera farnar að berast undir hestinn og eru hin bjartsýnustu með framhaldið - og hlæja að blaðamanni þegar hann spyr þau að lokum hvort þau ætli að stunda hestamennsku áfram. "Já, nú getum við fyrst farið að njóta þess og farið að rækta."


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband